Skipulag og undirbúningur skiluðu
„heilbrigðara samkomuhaldi“ en ella
„Fiskidagurinn mikli er stærsti löggæsluviðburðurinn á Norðurlandi eystra í ár og umtalsverð áskorun að sinna honum eins og nauðsyn krefur á þeim tíma sem flestir landsmenn voru í sumarleyfum, þar með taldir lögreglumenn.
Niðurstaða okkar hjá embætti lögreglustjóra er sú að í heildina hafi tekist vel til, þökk sé góðum undirbúningi og skipulagi. Löggæslumenn, sem starfað hafa á fyrri samkomum Fiskidagsins, segja að skemmtanahaldið nú hafi greinilega verið heilbrigðara en áður og það eigi líka við um yngra fólkið í gestaskaranum.
Allt bendir til þess að fleiri hafi sótt Fiskidaginn en nokkru sinni fyrr en ýmislegt gerist óhjákvæmilega þegar 30.000-40.000 manns koma saman á tiltölulega litlu og afmörkuðu svæði. Við teljum engu að síður að samkomuhaldið hafi tekist vel þegar á allt er litið.“
Þetta segir Jóhannes Sigfússon, aðstoðaryfirlögregluþjónn á Akureyri, um það sem að lögreglunni sneri varðandi Fiskidagshelgina á Dalvík.
„Þetta var 20. Fiskidagssamkoman og auðvitað söfnum við í reynslusarpinn í hvert sinn, styrkjum ákveðna þætti og herðum kröfur eftir atvikum. Það skilaði sér tvímælalaust.“
– Til hvers ertu þá að vísa? Hvaða ráðstafanir voru gerðar umfram það sem áður hefur þekkst í öryggismálum og löggæslu á fyrri samkomum?
„Vöktunin var mun meiri en áður, sérstaklega á tónleikunum að kvöldi laugardagsins. Settar voru upp öryggismyndavélar á Dalvík og lögreglan fylgdist líka með úr lofti þar sem svifu drónar á okkar vegum.
Umferðarskipulagið var endurskoðað og götum lokað fyrir bílaumferð í meira mæli en áður.
Tjaldstæði voru reituð niður og gerðar skýrar kröfur um fjarlægð milli aðsetra gesta, hvort heldur voru tjöld, tjaldvagnar, fellihýsi eða húsbílar.
Þá voru sett upp ljósamöstur á tjaldstæðum og á bílastæðum á Böggvistaðasandi til að lýsa upp svæðin svo fólk sæi betur til en ella. Ekki síður var þetta gert í öryggisskyni.
Þá vil ég nefna 14 merkta gæsluliða sem voru lögreglunni til aðstoðar að kvöldi föstudags og laugardags þegar langflest fólk var á Dalvík. Í þeim hlutverkum og öðrum hliðstæðum störfum voru sjálfboðaliðar úr björgunarsveitum og íþróttafélögum á Dalvík, frá Akureyri, Grindavík og Reykjavík.
Gæsluliðarnir eru einskonar framlenging á löggæslunni. Þeir fylgjast með því sem gerist og láta vita ef þeir telja þörf af afskiptum lögreglu. Þeir aðstoða fólk, leiðbeina og upplýsa. Framlag þeirra og nærvera skipti miklu máli.“
– Það hljóta samt að hafa komið upp mál sem þið gátuð allt eins búist en hefðuð viljað vera án eða hvað?
„Vissulega. Ég nefni eina líkamsárrás þar sem sparkað var í höfuð manns. Slíkt er að
sjálfsögðu grafalvarlegt mál og er í rannsóknarferli hjá okkur.
Ekkert kynferðisafbrot hefur verið tilkynnt.
Alls voru 14 fíkniefnamál skráð og hnífar teknir af 8 manns. Í nokkrum tilvikum tengdust þessi mál, það er að segja sumir, sem staðnir voru að verki með fíkniefni, voru vopnaðir hnífum.“
– Hvert var umfang löggæslu á Dalvík?
„Mesti viðbúnaðurinn var að kvöldi laugardags. Þá vorum við með alls um 40 lögreglumenn við almennt eftirlit og fíkniefnaleit, þar af 4 sérsveitarmenn.
Færanleg vettvangsstjórn lögreglu var í bíl á Dalvík og aðgerðastjórn mönnuð á Akureyri að kvöldi laugardags. Það kom sér vel þegar útkall barst vegna alvarlegs bílslyss miðja vegu milli Akureyrar og Dalvíkur. Þá kom sér einnig vel að þyrla Landhelgisgæslunnar var til taks á Dalvík. Hún var komin á slysstað skömmu síðar og flutti hinn slasaða til Akureyrar.“
Texti: Atli Rúnar Halldórsson