Heiðrun 2009

Fiskidagurinn mikli heiðrar árið 2009 minningu:  


Kristins Jónssonar 


Kristinn Jónsson netagerðameistari setti mikinn svip á mannlífið á Dalvík á fyrri hluta og fram yfir miðja 20. öld.  Hann starfrækti netagerð sem veitti útgerðum á Dalvík og víðar mikilvæga þjónustu á þeim árum sem síldveiði var öflugust fyrir Norðurlandi. Fyrir það, og mikilvægs félagsmálastarfs á Dalvík, er minning Kristins Jónssonar heiðruð. 

Kristinn starfrækti netaverkstæði frá árinu 1928 og til ársins 1964, eða í 36 ár. Sum árin var hann með þjónustu við 60 skip af 250 – 300 skipa flota sem þá stunduðu síldveiðar. Þjónustu við síldveiðiflotann hafði Kristinn víðar um land en á Dalvík, svo sem á Siglufirði, Hjalteyri, Vopnafirði og Seyðisfirði.  

 Auk öflugs atvinnurekstrar sat Kristinn samfellt í sveitarstjórn í 28 ár, þar af 4 ár sem oddviti hennar. Hann  var í 22 ár formaður hafnarnefndar. Kristinn var sundkennari á Dalvík og í Svarfaðardal í 30 ár og alla tíð titlaður sundkennari og könnuðust þannig flestir Dalvíkingar við hann sem Kidda sund.