Fiskidagurinn mikli 2013 heiðrar
Björgunarsveitina á Dalvík
Saga slysavarna á Íslandi er saga af fólki hefur dregið lærdóm af slysum sem orðið hafa og leitað leiða til að fyrirbyggja að slíkt kæmi aftur fyrir. Björgunarsveitir eru hluti af þeirri viðleitni.
Upphaflega var slysavörnum og björgunarstörfum einkum beint að sjónum. Ástæður þess voru tíð sjóslys og mannskaðar. Þegar Slysavarnafélag Íslands var stofnað 1928 og var félaginu ætlað það hlutverk að draga úr slysum á sjó og koma upp búnaði til björgunar Á þeim tíma var ekki óalgengt að tugir sjómanna létu lífið í sjóslysum á ári hverju. Alls er talið að vel á þriðja þúsund íslenskir og erlendir sjómenn eigi íslenskum slysavarnadeildum og björgunarsveitum líf sitt að launa.
Allt í kringum landið hafa lengi verið gerð út björgunarskip og minni björgunarbátar. Reknar eru björgunarþyrlur og Slysavarnaskóli sjómanna sem heldur úti kennslu í öryggismálum sjómanna. Alltaf er horft til þess hvernig ný tækni og þekking getur nýst til björgunarstarfa og slysavarna.
Slysavarnafélagið Landsbjörg, heldur utanum slysavarna- og björgunarstörf í landinu og undir merkjum þess starfa þúsundir sjálfboðaliða, í 99 björgunarsveitum, í 33 slysavarna- og kvennadeildum og í 54 unglingadeildum. Deildirnar mynda þéttriðið öryggisnet um land allt og eru tilbúnar að bregðast við þegar áföll dynja yfir og óhöppin verða. Björgunarsveitir eru afar dýrmætar fyrir öll samfélög og ekki síst sjávarútvegssamfélögin þar sem þær njóta mikils stuðnings og þátttöku íbúa og eiga farsæla sögu.
Björgunarsveitin Dalvík er ein þeirra sveitar sem mynda hið þéttriðna net.
Árið 2013 heiðrar Fiskidagurinn mikli Björgunarsveitina Dalvík og þakkar um leið öflugt starf í þágu lands og heimabyggðar.