Heiðrun 2007

Fiskidagurinn mikli heiðrar árið 2007: 

Ernu Hallgrímsdóttur

 


Konur hafa alltaf verið virkir þátttakendur í atvinnulífi þjóðarinnar. Framan af síðustu öld voru þær mikilvægur vinnukraftur við verkun á saltfiski. Aðbúnaður þessara kvenna var oft hörmulegur þar sem þær stóðu við að vaska fiskinn upp úr ísköldu vatni í óupphituðu húsnæði eða á opnum fjörukambi. Á því hafa orðið miklar breytingar. Strax og frystihúsin tóku að ryðja sér til rúms á fyrri hluta síðust aldar urðu þau stórir kvennavinnustaðir þar sem þær sáu um snyrtingu og pökkun afurðanna. Snyrtingin er enn í dag mannfrekasta starfið í fiskvinnslunni. Konur eru því enn fjölmennar í fiskvinnslunni. Margar konur, einkum úti um landið, á stöðum eins og á Dalvík, hafa haft fiskvinnslu sem aðalstarf með barnauppeldi og húsmóðurstörfum. Erna Hallgrímsdóttir, fiskvinnslukona, er ein slík. Hún hefur auk þess að sinna stóru heimili og barnahópi varið starfsævi sinni utan heimilis við fiskvinnslu.