Heiðrun 2010

Fiskidagurinn mikli heiðrar árið 2010: 

Samherja hf.


Samherji hf er heiðraður fyrir margháttaða sjávarútvegs-starfsemi á Dalvík. Á árinu 2010 eru 10 ár frá því Samherji hf kom að rekstri frystihússins á Dalvík. Frystihúsið hefur um áratugaskeið verið stærsta fiskvinnslufyrirtækið á Dalvík og verið í farabroddi fiskvinnslufyrirtækja á landinu. Á þeim áratug sem Samherji hf hefur rekið frystihúsið hefur hráefnið sem unnið er í húsinu tvöfaldast. Starfsmönnum hefur fjölgað á þessu tímabili en jafnframt hefur mikil framleiðniaukning og hagræðing átt sér stað. Í dag rekur Samherji hér á Dalvík fullkomnustu fiskvinnslu á landinu, og þótt víðar væri leitað. Sérstaklega er Samherji hf heiðraður fyrir öflugan stuðning við Fiskidaginn mikla. Árið sem Samherji hf hóf rekstur frystihússins á Dalvík var ákveðið að halda Fiskidaginn mikla í fyrsta sinn. Frá upphafi hefur Samherji hf verið aðalstyrktaraðili hátíðarinnar og alla tíð lagt til uppistöðu hráefnisins sem matbúið hefur verið fyrir gesti. Úrvals hráefni sem hefur gert það kleift að bjóða til veislu eins og á bestu veitingahúsum. 


Þorstein Má Aðalsteinsson fiskverkanda.

 

Þorsteinn Már Aðalsteinsson hafði á árinu 2001 frumkvæði að Fiskideginum mikla. Fiskverkendur á Dalvík ákváðu undir hans forustu að bjóða öllum landsmönnum til veislu og skemmtunar laugardaginn eftir verslunarmannahelgi. Hugmynd Þorsteins byggði á því að allt, matur og skemmtun á hátíðarsvæðinu, væri frítt. Þorsteinn hefur frá upphafi verið formaður stjórnar Fiskidagsins mikla og átt stóran þátt í því að gera Fiskidaginn mikla að þeirri fjölmennu hátíð sem raun ber vitni. Á fyrstu hátíðinni, árið 2001 voru gestir 5.800, á þeirri næstu 13.800 og síðan hefur þeim fjölgað ár frá ári þannig að árið 2009 er talið að um 38.000 gestir hafi verið á hátíðinni. Á árinu 1989 stofnuðu Þorsteinn Már og hans fjölskylda fiskvinnslufyrirtæki á Dalvík sem heitir Norðurströnd ehf. Fyrirtækið byrjaði smátt en hefur vaxið ár frá ári og náð að sérhæfa sig í vinnslu með góðum árangri. Þorsteinn Már er nú stjórnaformaður Norðurstrandar ehf.

Í tilefni af 10 ára afmælinu voru í raun ALLIR heiðraðir og fengu að gjöf risamálverk sem að listamaðurinn og Dalvíkingurinn Vignir Hallgrímsson málaði í sumar á suðurvegg salthússins sem er á hátíðarsvæðinu. Verkið var afhjúpað af sex fulltrúum. Þeir voru ;Ottó Jakobsson fyrir hönd stjórnar Fiskidagsins mikla, Hafdís Bjarnadóttir fyrir hönd sjálfboðaliða, Þorsteinn Sigfússon, (Steini Straumur frá Hólmavík) fyrir hönd allra gesta sem hafa komið, Kolbrún Pálsdóttir síldardrottning fyrir hönd matarstöðva, Hilmar Danílesson fyrrverandi forstjóri og stofnandi Sölku Fiskmiðlunar fyrir hönd styrktaraðila og Páll Kristinsson frá Landflutningum Samskip fyrir hönd gestgjafanna.