Sigrún Eldjárn opnar sýningu í Bergi
Sigrún Eldjárn opnar sýningu í Menningarhúsinu Bergi í Fiskidagsvikunni miðri, nánar tiltekið miðvikudaginn 6. ágúst kl. 17.00. Sýningin er nokkurs konar óður til blýantsins, þess merka verkfæris. Þarna verða sýndar blýantsteikningar af ýmsu tagi, teiknaðar á pappír, léreft og tré. Fiskar og fuglar eru áberandi yrkisefni auk þess sem könnuð verða dularfull tengsl milli blýanta og eyrna. Á sýningunni verður barnabókahorn þar sem líta má myndskreytingar úr nokkrum bóka Sigrúnar. Þar verður líka hægt að tylla sér fletta bókum, lesa og skoða.