Rúgbrauðs- og salatherinn í stórsókn

Rúgbrauð smurt - viðbitið hvergi sparað.
Rúgbrauð smurt - viðbitið hvergi sparað.

Enginn deyr úr leiðindum við að skera og smyrja rúgbrauð eða þvo og skera kál - alla vega ekki á Dalvík. Herdeildir rúgbrauðs og grænmetis fara hamförum í sínum þáttum undirbúnings og skemmta sér svo vel að söngur og trall ómar um allt hafnarsvæðið. Meira að segja er stiginn dans af og til í miðjum klíðum.

Fólk ræður sér bara ekki af kæti í verkum sem hafa þann tilgang einan að gleðja gesti Fiskidagsins og Dalvíkurbyggðar. Hvaðan koma Dalvíkingum eiginlega þessi gegnheilu gestgjafargen og gjafmildi? Stórt er spurt en vefst fyrir fleirum en skrifara þessa pistils að svara.

Geir Jón Þórisson Eyjamaður hefur svör á reiðum höndum og þarf ekkert að segja. Horfir bara ljómandi til himins. Í bókinni um sögu Fiskidagsins er haft eftir Eyjamanninum:

Dalvíkingar eru svo gjafmildir og góðir að guð almáttugur elskar þá og sér þeim fyrir fínu veðri þegar þeir taka á móti landsmönnum í fiskiveislunni sinni.

Þetta fullyrðir Geir Jón og hann hefur góð sambönd við fulltrúa almættisins ef ekki almættið sjálft.

Og hvað gerist nú? Skýin forða sér í önnur héruð, sólin bakar Dalvíkurbyggð í dag og kvikasilfrið á hitamælum er komið í 17 stig – á uppleið.

Prufusmakk á borðum rúgbrauðshersins lofar góðu. Og ekki svíkur heldur blessað smjörið. Þykktin á því nálgast þykktina á brauðinu sjálfu. Þannig smurði Kolla Páls rúgbrauðið sem undirlag síldar Fiskidagsins ár eftir ár og smjörgenin ganga greinilega í erfðir.

Nú hefur ábyrgðin færst til næstu kynslóðar og Ósk – Ógga Sigga, dóttir Kollu, smyr ríflega eins og mamma. Smakkprufan staðfesti það.

Kannski almættið hafi líka sín áhrif á hve ríflega smjör er skammtað á Dalvík?

Spyr Geir Jón þegar ég heilsa upp á hann á röltinu í kvöld, standandi upp úr mannhafinu.

  • Það væri svo gjörsamlega í anda Fiskidagsins mikla að gefa lesendum að smakka eitt og annað góðgæti hér á Vefnum en  bíður betri tíma. Þið fáið í staðinn tóndæmi - frá grænmetishernum í kálinu.

 

Kálið skolað og skorið. Mikið fjör á vettvangi.