Grímur kokkur ehf. og Matís ohf. ætla að vera með kynningu á Fiskideginum mikla. Grímur kokkur hefur í samstarfi við Matís unnið að evrópuverkefni þar sem markmiðið var að bæta Omega-3 í tilbúna rétti.
Grímur kokkur framleiðir fisk- og grænmetisrétti og leggur mikla áherslu á að framleiða aðeins úr fyrsta flokks hráefni. Hollusta er höfð í fyrirrúmi og því vaknaði sú hugmynd hvort mögulegt væri að bæta Omega-3 í réttina. Í verkefninu fór fram mikil vöruþróun og var útkoman úr þeirri vinnu grænmetispottréttur og fiskibollur og verður það framleitt undir Heilsuréttum fjölskyldunnar. Omega-3 fitusýrur stuðla að viðhaldi eðlilegrar sjónar, heila- og hjartastarfsemi og uppbyggingu miðtaugakerfisins í fóstrum. Ráðlagður dagskammtur af Omega-3 fæst með því að neyta 200 grömm af annað hvort grænmetispottréttinum eða fiskibollunum.