Litli Fiskidagurinn varð risastór
Íbúar Grundarheimilanna fengu Fiskidaginn mikla heimsendan í gær, 31. ágúst, í bókstaflegum skilningi. Þetta átti við dvalar- og hjúkrunarheimilin Grund og Mörk i Reykjavík og Ás í Hveragerði.
Þetta er í sjötta sinn sem Fiskidagurinn mikli slær upp veislu með fiskisúpu, þorski og tilheyrandi meðlæti fyrir eldri borgara syðra og hefur að yfirskrift „Fiskidagurinn litli“. Maturinn var sem fyrr í boði Samherja.
Vinsældir samkomunnar eru þvílíkar að eiginlega er hreint öfugmæli að smækka hana með því að tala um „lítinn“ Fiskidag. Í Mörkinni myndaðist biðröð í matsalnum strax og opnað var kl. 11:30 og aðsóknin var þvílík að stjórnendur á staðnum hafa vart séð annað eins. Áður en yfir lauk kláraðist þorskurinn en kokkarnir voru fljótir að snara rauðsprettu á pönnur til að fylla í skarðið. Fiskisúpupottarnir stóðu hins vegar af sér aðsóknina og skiluðu einhverjum afgangi þegar upp frá borðum var staðið.
Tveir helstu drifkraftar Fiskidagsins mikla ávörpuðu samkomuna og sögðu tíðindi frá hátíðarhöldunum á Dalvík á dögunum: Júlíus Júlíusson framkvæmdastjóri og Friðrik V. Hraunfjörð yfirkokkur. Góður rómur var gerður að fjörlegri lýsingu þeirra.
Matsalurinn var skemmtilega skreyttur, líkt og sjá má á meðfylgjandi myndum. Þarna myndaðist hin fullkomna og einlæga Fiskidagsstemning nokkur hundruð kílómetrum frá Dalvíkurhöfn og það er nánast með ólíkindum að slíkt sé yfirleitt hægt.
Söngvaskáldið KK sló botninn í hádegisveisluna litlu/miklu með því að taka lagið, segja sögur og spjalla um daginn og veginn. Maðurinn fór hreinlega á kostum og hrifning viðstaddra var rífleg og ósvikin þegar matar- og menningarveislunni lauk.
Fólk við eitt borðið bað skrifara þessara lína fyrir innilegar kveðjur og þakkir til íbúa Dalvikurbyggðar, Samherja og allra aðstandenda Fiskidagsins mikla. „Ég er strax farin að hlakka til Fiskidagsins litla að ári!“ sagði sessunautur að skilnaði. Það segir sína sögu.
Texti & myndir: Atli Rúnar Halldórsson