Heiðrunin 2014

Fiskidagurinn mikli 2014 heiðrar Sæplast/Promens Dalvík ehf.

Frá upphafi hefur Fiskidagurinn mikli heiðrað einstaklinga, starfsemi eða fyrirtæki sem skipt hafa máli fyrir uppbyggingu í sjávarútvegi á Dalvík, á öllu landinu eða jafnvel víðar. Árið 2014 heiðraði fiskidagurinn mikli fyrirtækið Sæplast hf. sem var stofnað á Dalvík árið 1984, eða fyrir 30 árum síðan. Hópur manna tók sig saman og keypti vélar og tæki til framleiðslu á fiskikerum. Vélarnar voru fluttar til Dalvíkur og starfsemi hafin. 

Árið 2005 var Promens hf stofnað og árið 2007 breyttist nafn verksmiðjunnar hér á Dalvík í Promens Dalvík ehf. Verksmiðjan á Dalvík hefur á þessum 30 árum vaxið jafnt og þétt, húsakostur hefur verið aukinn og bættur sem og öll framleiðslutækni, nú síðast með mikilli stækkun 2012 þegar tekinn var í notkun rafmagnsknúinn ofn og þar með vistvænni. Í dag starfa um 60 manns við fyrirtækið á Dalvík.

Promens hf. 41 er með verksmiðjur í 19 löndum og eru starfsmenn um 3.800. Vörumerkið Sæplast er notað í mörgum þessara verksmiðja og gegnir starfsemi verksmiðjunnar á Dalvík lykilhlutverki í vöru- og tækniþróun þeirra.

Sæplastkerin hafa verið í lykilhlutverki við framþróun sjávarútvegs í norður Evrópu. Þannig hefur fyrirtækið sem hóf starfsemi sína hér á Dalvík fyrir 30 árum haft, og hefur enn, jákvæð áhrif á hagkvæmni og þróun í sjávarútvegi. 

 Matthías Jakobsson var í hópi þeirra sem stóðu að stofnun fyrirtækisins fyrir 30 árum síðar og fyrsti stjórnarformaður sem hann var til ársins 1997, eða í 13 ár.

Hann tók við viðurkenningarskjali fyrir hönd þess framsýna hóps sem á sínum tíma keyptu og fluttu fyrirtækið Sæplast til Dalvíkur. Daði Valdimarsson, framkvæmdastjóri Promans Dalvík ehf. tók einnig við viðurkenningarskjali og grip sem Jóhannes Hafsteinsson hannaði og smíðaði að venju og verður væntanlega varðveittur í verksmiðjunni hér á Dalvík af þessu tilefni.