Já, já. Eyjamennirnir mæta og eru reyndar þegar mættir. Þegar Vestmannaeyjar ber á góma á Dalvík í Fiskidagsvikunni kemur jafnan tvennt upp í hugann: Kemur Geir Jón Þórisson? Kemur Grímur kokkur með allt sitt harkalið og góðmeti?
Staðfest er af Fésbók og æðri máttarvöldum að Geir Jón er mættur og tók Fiskidagsgleði sína um leið og hann ók yfir Hámundarstaðaháls og Dalvíkin blasti við.
Í vinnslusal við höfnina hamast Grímur kokkur og aðstoðarlið hans við að undirbúa morgundaginn. Það dugar ekkert annað en ker frá Sæplasti til að laga sósur með fiskinum. Allt er svo stórt í sniðum í stærstu matarveislu Íslandssögunnar.
Meistarakokkurinn spilar sósuuppskriftir eftir eyranu og fer létt með það. Þetta er sjálflært enda ekki í kennt í virðulegum kokkaskóla að búa til sósur á fisk í virðulegum, dalvískum Sæplastsílátum.
Að öðru leyti er mikill erill á hafnarsvæðinu enda allt að gerast - akkúrat NÚNA.
Prufusmakkarar að störfum og Grímur heldur kúlinu á meðan hann bíður eftir dómsúrskurði. Dómsorð: Frábært!
Friðrik V., yfirkokkur Fiskidagsins mikla, leggur starfsfólki lífsreglur. Það vantar ekki meistarakokkana á hafnarsvæðið í dag frekar en neitt annað.
Adda aðstoðarmeistarakokkur með björg í bú – á bakinu. Aðföng með mannafli.
Júlli Fiskidagsforstjóri fer um á reiðhjóli í dag. Sá ferðamáti er fljótlegri en akstur á bíl og aukinheldur bæði hollur og orkusparandi. Til vinstri á myndinni er Óskar Óskarsson, stjórnarmaður Fiskidagsins mikla, og í miðið Bensi á Fiskmarkaðnum, Benedikt Snær Magnússon.