Ólíkt hafast menn að í Dalvíkurbyggð í Fiskidagsvikunni en markmiðin eru jafnan þau hin sömu: að gleðja heimafólk og gesti Fiskidagsins úr öllum landshornum sem mest og best um helgina.
Í heimahúsum er bakað rúgbrauð til að hafa með síldinni á hátíðarsvæðinu. Að bakstri loknum er komið með afurðirnar og þeim skilað á langborð innan dyra við hlið Víkurkaupa. Strax um hádegi í dag (fimmtudag) fóru að myndast þar fjöll með brauðhleifum. Að morgni föstudags verður tekið til við að skera og smyrja.
Allt auðvitað í sjálfboðavinnu og sama fólkið gerir þetta ár eftir ár. Rúgbrauðsvélin er fjölmenn, skilvirk og vel smurð.
Á öðrum stað í bænum var allt annar undirbúningur í fullum gangi. Björgunarsveitarmenn grúska í alls kyns skoteldadóti til undirbúnings glæsilegustu flugeldasýningu landsins, við Dalvíkurhöfn í lok stórtónleikanna á laugardagskvöld. Fyrir miðnættið lýkur tónleikunum og á lokatónunum lúðra sprengisérfræðingar Björgunarsveitar Dalvíkur fyrstu neistum í púðrið.
Gestir Fiskidagsins mikla hafa jafnan dásamað mjög flugeldasýninguna sem markar formleg dagskrárlok samkomunnar og mannfagnaðarins. Björgunarsveitarmenn fullyrða að hafi gestir áður þurft að grípa til lýsingarorða í efsta stigi verði þeir að bæta við aukaþrepi í orðaforðann sinn nú. Þetta verður eitthvað.
Undirbúningur og framkvæmd flugeldasýningar Fiskidagsins er hreint ekkert áramótagrín heldur virðulegt, alþjóðlegt fag sérfræðinga. Björgunarsveitarmenn á Dalvíkvíkinga eiga í sínum röðum fagfólk sem sótt hefur sér reynslu og þekkingu hérlendis og erlendis. Það hefur meira segja kynnt sér starfsemi í flugeldaverksmiðjum í Kína og setið þar á skólabekk og í Bandaríkjunum til að stúdera fræði sem við hin njótum góðs af undir miðnættið 12. ágúst - í bláenda hátíðarinnar 2023.
Fiskidagurinn kveður að vanda í blossum, eldglæringum og púðurreyk.
Rúgbrauðsfjöllin myndast hægt og sígandi ...
Annars konar fjöll hlaðast upp hjá björgunarsveitarmönnum. Enginn rúgur er þar grunnefni í bakstri.