Fiskigangstétt og fleira

Fiskidagsstemningin liggur í loftinu og eykst.

Nú eru snillingarnir hjá Vinnuskólanum byrjaðir að skreyta og nú er verið að breyta gangstéttinni við Frystihúsið í fisk. 

 

Hér koma nokkur skilaboð:
 

Það er ólýsanlega skemmtilegt að vera súpugestgjafi á súpukvöldi

Takk fyrir góð viðbrögð við súpukvöldinu! Nú verður fjör. Skorum á alla að skrá sig og vera með í þessu skemmtilega og gefandi verkefni. Skráning á julli@julli.is, eða hringið í Júlla í síma 897-9748

Göturölt 2014
Forvarnarnefnd Fiskidagsins mikla óskar eftir sjálfboðaliðum 20 ára og eldri til að taka þátt í göturöltsvöktum aðfaranætur laugardags og sunnudags um Fiskidagshelgina.

Hús eða íbúð
Óskað er eftir húsi eða íbúð til leigu á Fiskidaginn mikla. Áhugasamir sendi póst á fiskidagurinn@julli.is

Rúgbrauðsbakarameistarar Fiskidagsins mikla 2014!
Síldin á Fiskidaginn mikla er afar vinsæl. Kolla Páls og hinar síldarstúlkurnar eru klárar í smyrja og gefa þúsundum manns síld og rúgbrauð með bros á vör. Við óskum eftir rúgbrauði að venju. Tekið verður á móti rúgbrauðum fimmtudaginn 7. ágúst í Fiskverkun O. Jakobssonar milli kl. 13:00 og 15:00.

Skreytingar 2014 – “Skreytum hús með litum vænum”
Íbúar hafa alltaf fengið lof fyrir frábærar skreytingar.  Nú er upplagt að fara að huga að skreytingum ársins og skorum við á alla áhugasama að vera með.

Veggspjöld – Póstkort – Ratleikur 2014

Veggspjöldin, ratleikurinn og póstkortin eru komin í verslanir og þjónustustaði. Grípið veggspjöld með ykkur í ferðalagið og hengið upp fyrir hátíðina okkar,

Vináttuböndin 2014
Fiskidagurinn mikli þakkar þeim sem hafa búið til vináttuarmbönd til að færa gestum sem koma til Dalvíkur á Vináttukeðjunni og hvetur um leið fleiri til að taka þátt í þessu gefandi og skemmtilega verkefni. Framkvæmdin er hugsuð þannig að hver og einn gengur um og gefur þeim gestum sem þeir þekkja "ekki" band. Ef að þeir sem hafa búið til armbönd vilja ekki gefa sjálfir þá eru krakkar á vegum Fiskidagsins mikla sem sjá um það. Þeim armböndum er skilað til Júlla framkvæmdastjóra Fiskidagsins mikla. Fiskidagurinn mikli þakkar öllum af alúð sem hafa lagt og munu leggja þessari hugmynd lið

Skreytum og skreytum – Fiskidagsblöðrurnar 2014
Íbúar hafa alltaf fengið mikið lof fyrir frábærar skreytingar.  Það er gaman að skreyta og er skemmtilegt fjölskylduverkefni, það væri gaman að sem flestir tæku þátt í að skreyta í ár. Í kring um Verslunarmannahelgina verða Fiskidagsblöðrur bornar í hús í Dalvíkurbyggð. 10 blöðrur í hvert hús og hvetjum við alla til að nota þær í skreytingar er nær dregur helginni. Munum svo eftir fisknum okkar góða.

Verði ljós.
Minnum alla á að huga snemma að ljóskerum, seríum, perum og öllum þeim ljósum sem hægt er að skreyta með. 

Göturnar hreinsaðar
Þriðjudag, miðvikudag og fimmtudag í Fiskidagsvikunni verða götusópurinn og götusmúlarinn að hreinsa bæinn okkar. Vinsamlegast fylgist með og passið að aðengið sé sem allra best fyrir þá jafnt við íbúðarhús sem fyrirtæki.

Ratleikurinn 10 ára – Sæplast 30 ára
Að venju verður ratleikur Fiskidagsins mikla á sínum stað. Í ár verður hann með örlítið öðru sniði þó svo að leikurinn sé eins. Þú þarft að ganga um Dalvík og finna út í hvaða götu sex myndir eru teknar. En þar sem að Sæplast er 30 ára verður leikurinn tengdur þeim tímamótum. Verðlaunin eru fimm glæsilegir ferðakistlar fullur af vinningum og nú verða fimm aðilar dregnir út og þurfa að vera á staðnum þegar dregið er og mæta á aðalsviðið, velja sér kistil og í einum þeirra er Ipad að auki.