Fiskidagurinn Miklil 2017

Fiskidagurinn mikli 2017 - Fréttatilkynning

  • Einstök Fjölskylduhátíð á heimsmælikvarða í blíðskaparveðri
  • 33.000 manns glaðir gestir
  • Breytt fiskasýning sló í gegn
  • Valrós Árnadóttir heiðruð
  • ALLT fór vel fram – Ekkert á borði lögreglu
  • Fiskidagurinn mikli sameinar fólk “ Útópía í raunheimum”
  • Tónlistarviðburður í litlu sjávarþorpi á heimsklassa

Í línuriti Vegagerðarinnar kemur fram að um eða yfir 33.000 manns hafi heimsótt Fjölskylduhátíðina “Fiskidagurinn mikli” í Dalvíkurbyggð heim um helgina. Þrátt fyrir þunga umferð á köflum gekk hún vel og sama má segja um öll samskipti fólks. Engin mál eru á borði lögreglu.

Vináttukeðjan – Fjöldaknús.

Föstudaginn 11. ágúst var dagskrá í kirkjubrekkunni sem er nokkurskonar setningarathöfn fyrir Fiskidaginn mikla. Vináttukeðjan er hlý og notaleg stund þar sem að staldrað er við og hugað að vináttunni og náungakærleikanum. Þar er tónlistarflutningur og vinátturæðuna flutti Ástarvikukonan Soffía Vagnsdóttir frá Bolungarvík. Heimamenn færðu gestum fléttuð vináttuarmbönd, vináttufána, knúskort og í lokin var innilegt fjöldaknús til að leggja línurnar fyrir helgina og það má með sanni segja það það hafi enst út helgina.

Fiskisúpukvöldið mikla

Á föstudagskvöldinu buðu um 120 fjölskyldur í Dalvíkurbyggð uppá fiskisúpu og vinalegheit. Hver sá sem bauð uppá súpu var með sína uppskrift. Einstaklega gott og ljúft kvöld í blíðskaparveðri. Áætlað eru að um 24.000 manns hafi verið á rölti um bæinn þetta kvöld þar sem að súpa, vinátta og einstök samvera var í aðalhlutverki.

Fiskidagurinn mikli – Frábær matur

Laugardaginn 12. ágúst milli kl 11.00  og 17.00 var Fiskidagurinn mikli haldinn hátíðlegur í sautjánda sinn á hafnarsvæðinu á Dalvík og einn eitt skiptið  sól og  einstakri veðurblíðu. Um130.000 matarskammtar runnu ljúflega ofan í gesti Fiskidagsins mikla.  Matseðillinn var gómsætur og fjölbreyttur að vanda og það mátti heyra á mörgum gestum að hann hafi verið sá allra besti frá upphafi.  Mjög fjölbreytt dagskrá var á sviði og hátíðarsvæðinu allan daginn. Um 150 manns komu fram í frábærri og vel heppnaðri dagskrá á sviðinu og á svæðinu . Björgúlfur EA 312 , nýr togari Samherja og Varðskipið Þór voru til sýnis.

Ný og breytt fiskasýning sem sló svo sannarlega í gegn

Á Fiskideginum mikla frá upphafi hefur Skarphéðinn Ásbjörnsson með hjálp góðra manna sett upp fiskasýningu. Nú var hún færð inn í hús og sett upp með lýsingu, myndböndum og fleiru. Það má með sanni segja að þessi nýbreytni hafi slegið í gegn og það má segja að gestir sýningarinnar hafið verið orðlausir.

Heimsklassa tónleikar í kvöldkyrrðinni  - Íslensk tónlistarveisla

Hátíðinni lauk síðan með Fiskidagstónleikum og flugeldasýningu  af stærri gerðinni í boði Samherja. Boðið var uppá einstakan tónlistarviðburð. Í farabroddi voru heimamennirnir Friðrik Ómar, Matti Matt, Eyþór Ingi. Meðal annara sem komu fram voru:  Pálmi Gunnarsson, Björgvin Halldórsson, Blaz Rocka, Friðrik Dór, Birgitta Haukdal,  Raggi Bjarna, Andrea Gylfadóttir, Ragga Gísla og Jónas Sigurðsson,  Flugeldasýning Björgunarsveitarinnar á Dalvík setti lokapunktinn á einstaka fjölskylduhátíð.  Aldrei hafa fleiri verið samankomnir í einu fyrir neðan kaupfélsbakkann, mannhafið var mikið og tignarlegt. Fólk á öllum aldri skemmti sér saman og allt fór afar vel fram og gestir til fyrirmyndar og fyrir það ber að þakka.

Fiskidagurinn mikli sameinar fólk

Fiskidagurinn mikli er fjölskylduhátíð þar sem að lagt er áherslur á samverustundir stórfjölskyldunnar og fjölskyldan taki þátt sem ein heild. Fiskidagurinn mikli sameinar fólk.

Við hjá Fiskideginum mikla leyfum okkur að vitna í tónlistarmannin og mannvinin Jónas Sig.

"Fiskidagurinn mikli á Dalvík. Þvílík upplifun. Þvílík sturlun. Þvílík fagmennska!  Hef ekki upplifað áður svona hátíð sem gengur út á að gefa öllum allt. Gestrisni og gjafmildi allstaðar. Fyrir svona fiskiþorpara eins og mig var þetta einhverskonar útópía í raunheimum! Takk fyrir mig Dalvíkingar “

Fiskidagurinn mikli 2017 heiðrar.

Frá upphafi hefur fiskidagurinn mikli heiðrað einstaklinga, starfsemi eða fyrirtæki sem hafa skipt sérstöku máli varðandi sjávarútveg á Dalvík, og jafnvel víðar.

Fiskidagurinn mikli 2017 heiðrar sjómannskonuna Valrósu Árnadóttur

Sjómannskonan skiptir miklu máli í sjávarútvegssamfélaginu. Hún sér um heimili og fjölskyldu í fjarveru sjómannsins og hún hefur einnig í gegnum tíðina unnið úr þeim afla sem á land berst og verið þannig mikilvæg fyrir atvinnulífið.

Valrós giftist ung sjómanni og átti fjögur börn þegar hún missti mann sinn í hamfaraveðrinu 9. apríl 1963. Eftir það varð hún að axla ein þá ábyrgð að halda heimili og koma börnum sínum upp.  Valrós er fulltrúi þeirra mörgu kvenna sem urðu sjómannskonur, og einnig þeirra sem urðu sjómannsekkjur. Betri aðbúnaður, samskiptatækni og meiri öryggisráðstafanir gera líf sjómannskonunnar öruggara og betra, ekki síður en sjómannsins.

Af þessu tilefni fékk Valrós afhent heiðursskjal og einnig verðlaunagrip sem hannaður er og smíðaður af Jóhannesi Hafsteinssyni hagleiksmanni úr Miðkoti.