Lokað vegna Fiskidagsins mikla!
Þrátt fyrir að nú sé háönn ferðaþjónustunnar hér á landi koma erlendir sem innlendir gestir að lokuðum dyrum veitingastaðarins Friðriks V við Laugaveg í Reykjavík dagana 6. - 8. ágúst. Þar er lokað vegna Fiskidagsins mikla enda starfsfólk og eigendur staðarins norður á Dalvík að undirbúa og taka þátt í dagskrá Fiskidagsins. „Við höfum frá upphafi verið miklir aðdáendur Fiskidagsins mikla og tekið þátt öll árin, utan tvö. Þó við gætum verið með fullt hús við Laugaveginn þessa daga þá veljum við frekar að fara norður á Fiskidaginn,“ segir Friðrik V. Karlsson sem ásamt eiginkonu sinni, Arnrún Magnúsdóttir, börnum, tengdabörnum, vinum og starfsfólki mæta til leiks á Fiskidaginn mikla með sitt veitingatjald og allir leggja hönd á plóg.
„Þetta er okkar sumarleyfis- og skemmtiferð innanlands. Við búum öll saman í Ytri-Vík á Ársskógsströnd og skiptum með okkur vöktum í veitingatjaldinu á Fiskidaginn. Annars er það nú þannig að það vilja allir vera í tjaldinu og afgreiða, sérstaklega þegar líður á daginn. Það er ekkert síður mikil stemning fyrir okkur í veitingatjöldunum en hjá gestum Fiskidagsins. Andinn á Dalvíkinni þessa daga er einstakur,“ segir Friðrik.