„Við erum að laga 110 lítra af karrí-kókoslagaðri skelfisksúpu fyrir um 700 manns. Í þetta sinn fá gestir okkar ferskan fisk í málin sín og við hellum síðan súpunni yfir líkt og tíðkast á fínustu veitingahúsum. Súpan er uppbökuð með asískum tónum,“ sögðu húsráðendur að Ásvegi1 á Dalvík í gærkvöld, Gerður Olofsson leikskólakennari og Daði Valdimarsson verkfræðingur.
Kátt var á hjalla við langborðið í eldhúsinu þar sem grænmeti var skorið eftir kúnstarinnar reglum í fiskisúpu kvöldsins. Þetta er í þriðja sinn sem Gerður og Daði verða með „götusúpu“ og nú sem fyrr nutu þau aðstoðar vinkvenna Gerðar frá Akureyri og maka þeirra. Aðstoðarkokkarnir komu reyndar líka frá Noregi og Danmörku og mikil stemning ríkti á staðnum. Fiskidagsgleði er enda engu öðru lík.
Lóðin við húsið er ekki ýkja stór en rúmar samt fjögur hjólhýsi gestanna sem mynda lítið þorp þar sem götur á milli eru þrengri en þrengstu stígar í ítölsku sveitaþorpi. Hvern varðar annars um þrengsli þegar vinir hittast og eiga saman ljúfa súpustund?
Hjólhýsaþorpið að Ásvegi 1. Daði húsbóndi lítur yfir dýrð Dalvíkur af svölum sínum.