Þakklátir gestir og heimamenn brosa líka breitt

Það var nefnilega hvorki sjálfsagt að hægt væri að sveifa þessa miklu framkvæmdavél í gang á ný eftir þriggja ára hlé né að að heimamenn í Dalvíkurbyggð, stuðningsfyrirtæki og landsmenn yfirleitt væru til í tuskið enn og aftur.

Þegar á reyndi tókst allt framar því sem við leyfðum okkur að vona og skiptir ekki máli hvar við berum niður. Fiskidagurinn í ár var stórkostlega vel heppnuð samkoma og ástæða til að þakka öllum sem að komu.“

 Júlíus Júlíusson, framkvæmdastjóri Fiskidagsins, hefur fengið tækifæri núna í vikunni til að horfa um öxl og meta samkomuna. Hann kveðst vera skýjum ofar og að ef finna megi einhverja hnökra séu þeir of fáir og smáir til að taki að nefna þá.

 „Það var ekkert minna en stórkostlegt að sjá hundruð sjálfboðaliða taka höndum saman með bros á vör og mér þykir sérstaklega vænt um að heimafólk í Dalvíkurbyggð brosir enn.

 Engar kvartanir hafa borist af neinu tagi en upp úr stendur hjá þeim sem ég hef talað við að meiri ró var yfir mannskapnum en oft áður og umgengni til fyrirmyndar.

 Ungt fólk er nefnt sérstaklega í þessu sambandi og sjálfur upplifði ég að sjá ungmenni beygja sig niður eftir rusli á förnum vegi og að ungt fólk kæmi til mín og þakkaði fyrir sig með handabandi. Slíkt hefur bara ekki gerst fyrr.“

 – Hvernig tóku stuðningsfyrirtæki Fiskidagsins þeirri hugmynd að byrja á ný í ár eftir langt COVID-hlé?

 „Undantekningarlaust vel. Við vissum auðvitað ekkert um undirtektir þeirra fyrr en á reyndi en viðbrögðin reyndust á einn veg. Langflest fyrirtæki, sem áður höfðu lagt okkur lið, vildu vera með núna. Nokkur ný fyrirtæki bættust við, þar á meðal í hóp stærstu stuðningsaðila.

 Gestir okkar höfðu orð á því að samkoman hefði þróast að ýmsu leyti, meðal annars veisluföngin á matseðli veitingastöðvanna á hátíðarsvæðinu við höfnina. Friðrik V., yfirkokkur Fiskidagsins, hefur lagt sig eftir því að gera gott enn betra og faglegra ár frá ári. Hráefnið er fyrsta flokks, matreiðslan og framreiðslan sömuleiðis. Sjálfur fullyrðir hann að hráefnið í mat Fiskidagsins sé ferskara en gerist yfirleitt á veitingahúsum landsmanna!

 Við bjóðum einfaldlega mat í hæsta gæðaflokki. Þetta fer ekki fram hjá gestunum og þeir hafa orð á því.“

 – Löggæsla á svæðinu var mikil og áberandi. Það hlýtur að hafa haft áhrif á mannskapinn?

 „Já, fyrst og fremst á þann hátt að fólk fylltist öryggi. Það skynjaði að löggæslan var í þágu þess.

 Nú var okkur gert í fyrsta sinn að sækja um sérstakt leyfi til samkomuhaldsins. Til að fá það þurfti að uppfylla kröfur lögreglustjórans á Norðurlandi eystra sem vörðuðu í mörgum liðum ýmsa þætti öryggismála, eftirlits og aðbúnaðar. Öll skilyrði voru uppfyllt.

 Ég skrifaði undir leyfið fyrir hönd Fiskidagsins og skal alveg játa að hafa fundið fyrir hnút í maga þegar helgin nálgaðist. Allt var til bóta sem gert var í undirbúningnum og samdóma álit þeirra sem störfuðu við gæslu á tjaldstæðum og annars staðar var að yfirbragð skemmtanahaldsins hafi verið til sóma.

 Umgengni gesta okkar 2019 var að ýmsu leyti ábótavant, það verður bara að segjast. Núna  var aðra sögu að segja og þegar ég hitti aftur og aftur fyrir kurteist og jákvætt ungt fólk öðlaðist ég á ný trú á sjálft mannkynið.“

 – Hvað sögðu skemmtikraftar sem komu til Dalvíkur og höfðu fæstir aldrei upplifað Fiskidagsstemninguna eða komið fram á stórtónleikunum að kvöldi laugardags?

 – Um viðbrögð þeirra mætti skrifa heila bók. Hér tölum við um tónlistarmenn sem komið hafa fram víða hérlendis og erlendis og upplifa á Dalvík tónleikasvið og umgjörð á heimsmælikvarða. Viðmælendur mínir áttu fæstir orð til að lýsa upplifun sinni, aðbúnaði, fagmennsku í smáu og stóru og viðtökum tugþúsunda sem hlýddu á og fylgdust með.

 Sjálfur tel ég að sérstök stemning þarna skapist ekki síst vegna þess að stór hluti tónleikagesta er heimafólk, gestir þess og svo auðvitað þeir sem búa á tjaldstæðunum um Fiskidagshelgina og eru í þeim skilningi „heimafólk“ líka.

 Tónleikarnir og flugeldasýningin í lok þeirra er nokkuð sem fólk upplifir hvergi annars staðar á Íslandi og þótt víðar væri leitað. Hrifningin nú nálgaðist að teljast algleymi. Margt mætti segja um tónleikana og flugeldasýninguna, sýningu sem var vel saman sett, mikilfengleg og stóð lengi yfir. Mál manna er að annað eins hafi aldrei sést hérlendis, ekki einu sinni neitt nálægt því.

 Ég vil þakka gestum okkar kærlega fyrir komuna og þakka sömuleiðis öllum, sem lögðu Fiskideginum mikla 2023 lið á einn eða annan hátt, fyrir frábært samstarf og ómetanlegt framlag.

 Þessi tuttugu ára afmælishátíð verður í minnum höfð. Lengi, lengi.“