Heiðrun 2008

Fiskidagurinn mikli 2008 heiðrar:

 Óskar Jónsson 


 

Samgöngur hafa ráðið miklu um þróun sjávarútvegs og þróun byggðar. Mest af þeim afla sem unnin er í fiskvinnslu á Dalvík kemur með bílum eftir þjóðvegunum og fullunninni vöru síðan ekið til útflutningshafnar þar sem flutningaskip eða flugvél taka við henni. 1. maí 1946 hófust vöruflutningar milli Dalvíkur og Reykjavíkur þegar Óskar Jónsson bifreiðastjóri fór fyrstu ferð til slíkra flutninga. Óskar hóf síðan akstur á eigin bifreið árið 1948 og hófst þá reglubundinn akstur á milli Dalvíkur og Reykjavíkur.  Í byrjun níunda áratugarins hófust að marki flutningar á fiski milli staða þegar fiskverkendur voru m.a. að kaupa fisk á vertíðarsvæðunum og flytja í vinnslu á Dalvík. Árið1982 útbjó Óskar fyrsta flutningabílinn fyrir frosnar og kældar sjávarafurðir.  Fyrirtæki Óskars, Ó Jónsson og co, skipulagði strax í byrjun góða þjónustu á þessu sviði og var þar í fararbroddi flutningafyrirtækja. 1995 var fyrirtækið sameinað fleiri fyrirtækjum undir merkjum Landflutninga.