Teigaband á útopnu

Gunnar Þór Þórisson gítarleikari, Kristinn J. Hauksson bassaleikari og Halli Gulli trommuleikari.

…
Gunnar Þór Þórisson gítarleikari, Kristinn J. Hauksson bassaleikari og Halli Gulli trommuleikari.

Bændarokkarar byggðarlagsins, sjálft Teigabandið, stíga á stokk á hátíðarsviðinu um helgina, skárra væri nú. Þeir æfðu af krafti í aðsetri sínu við Dalvíkurhöfn í gær og komu vel undan sumri, hvorki ryð né ryk að finna í gangverkinu og nú skal gengið til Fiskidagsleiks með nýsmurða vél.

Teigabandið er gamalgróið en meðalaldurinn er samt áratugum lægri en til dæmis í Rolling Stones þar sem aldnir hafa orðið.

Hvenær bandið var stofnað er afstætt. Liðsmennirnir gefa valkvætt svar við þeirri spurningu allt eftir því hver er spurður, hvar og hvenær sólarhrings. Alla vega eru liðin fimmtán ár en tæplega þrjátíu. Rétt svar flýtur einhvers staðar þar á milli.

Fjöldi liðsmanna í bandinu er líka teygjanlegur. Í gærkvöld var fullskipað þegar níu voru komnir á vettvang og þá var talið í fyrsta lag.

Nafnið á bandinu vísar í Teiginn, tiltekið fjalllendi í Svarfaðardal þar sem liðsmenn leita kinda á haustin og skemmta svo sér og öðrum á hljómsveitarpalli á bænum Búrfelli að kvöldi og fram á nótt.

Annars er nærtækast að vísa til yfirlitsgreinar um Teigabandið sem birtist í virðulegum fjölmiðli haustið 2019. Þar kemur fram að hljómsveitin hafi gert það gott í Suður-Kóreu þegar útsendarar sjónvarpsstöðvar þar í landi flæktust um Ísland og tóku upp efni, þar á meðal í gangnamannateiti á Búrfelli. Teigabandið var á allra vörum á Kóreuskaganum lengi eftir sýningu Íslandsþáttarins.

Suður-Kóreubúar heilluðust sem sagt af Teigabandinu og fjallað var um menningarframlag þeirra á mannfræðinámskeiði í háskóla í Seoul.  

Kannað var hvort bandið væri til í að skreppa til Suður-Kóreu og fylgja frægðinni þar eftir en það kom ekki til greina af hálfu íslenskra stjórnvalda. Skemmst er að minnast þess að fyrirtæki nokkurt á Ísafirði var selt á dögunum og þau viðskipti rugguðu íslenskri krónu. Ef Teigabandið færi hins vegar úr landi myndi landsframleiðslan hrapa þa stundinni því liðsmenn þess eru lykilmenn í atvinnulífi Dalvíkurbyggðar og þar með landsins alls.

Og nú lætur Teigabandið enn og aftur til sín taka á Fiskidagssviðinu og þá mun það gerast að sjálfur forseti Íslands kynni það til sögunnar, gott ef ekki telur í fyrsta lag. Missum ekki af því.

Dagmann  Ingvason hljómborðsleikari, Guðmundur Kristjánsson söngvari, Gunnar Þór Þórisson gítarleikari, Kristinn J. Hauksson bassaleikari og  Halli Gulli trommuleikari.

Friðrik Vilhelmsson harmónikuleikari,  ásláttarmennirnir Jóhann Magnússon og Júlíus Baldursson,  Þorvaldur Kristjánsson gítarleikari og Dagmann Ingvason hljómborðsleikari.