Sælla er að gefa en selja.

Jólabókaflóðið verður á sínum stað í Dalvíkurbyggð þegar þar að kemur en í ár verður SUMARBÓKAFLÓÐ og það við höfnina á Fiskidaginn mikla kl. 11-17.

Fulltrúar Gríms kokks frá Vestmannaeyjum og Svarfdælasýsls forlags rugla saman reytum í veitingabás fyrrnefnda félagsins. Eyjamennirnir bjóða fólki að bragða á eðalframleiðslu sinni en forlagið sér um andlegu næringuna með því að gefa bækur og hljómdiska.

Systkin frá Jarðbrú í Svarfaðardal eiga Svarfdælasýsl forlag og ætla að heiðra Fiskidaginn mikla og gesti hans á tuttugu ára afmælishátíðinni með því að gefa annars vegar bókina Flýgur tvítug fiskisaga, Fiskidagurinn mikli 2001-2020, eftir Atla Rúnar Halldórsson og hins vegar bókina Svarfdælasýsl eftir Óskar Þór og Atla Rúnar Halldórssyni, á meðan birgðir endast.

Þetta er í fyrsta sinn sem bókaforlag haslar sér völl á hátíðarsvæði Fiskidagsins og gjafir þess veita þiggjendum gleði og ánægju lengi, lengi. Fiskidagssagan kom út á jólaföstunni 2020 en Svarfdælasýsl í september 2017, fyrsta bókin sem forlagið með svarfdælsku ræturnar gaf út. Þar er fjallað um kvikmyndina Land og syni (tekin upp í Svarfaðardal og við Eyjafjörð sumarið 1979), um Húsabakkaskóla sáluga í Svarfaðardal og um Göngustaðaættina svarfdælsku.

Ekki nóg með það. Þeir sem þiggja bók eða bækur fá hljómdisk með einhverjum af Fiskidagstónleikum undanfarinna ára – einn disk ef þeir fá eina bók, tvo diska ef þeir þiggja tvær bækur. Þannig virkar bónuskerfi Svarfdælasýsls forlags sem slæst nú í lið með öðrum félögum og fyrirtækjum á hátíðarsvæðinu undir slagorðunum „Sælla er að gefa en selja“.

Og svo það sé sagt: Bækur og diskar verða afhentir í pappírspokum með höldum til að gera viðtakendum lífið létt við að koma gjöfunum í heimahús.

Allt ókeypis að sjálfsögðu í bás Eyjamanna, hvort heldur er unaðslegur matur eða uppbyggileg lesefni og úrvalstónlist á diskum.