Fiskidagurinn mikli aflagður

Fiskidagurinn mikli á Dalvík heyrir sögunni til. Stjórn samnefnds félags, sem stofnað var árið 2005 til að halda utan um samkomuhaldið, hefur ákveðið að láta nú staðar numið. Sú er niðurstaðan eftir mat á stöðu mála og ítarlegar umræður undanfarnar vikur við undirbúning á Fiskideginum mikla 2024 sem hófst strax að loknum Fiskideginum mikla í ágúst síðastliðnum. Fyrir lá þá þegar að styrktaraðilar og sjálfboðaliðar væru reiðubúnir í enn eitt samkomuhaldið að ári.

Ákvörðun um að hætta er því tekin með sorg og söknuð í hjörtum þeirra sem að einstakri samkomu hafa staðið alls tuttugu sinnum frá 2001 til 2023.

Hver er ástæðan?

Kjarni svarsins er sá að á stjórn Fiskidagsins mikla hvílir mikil ábyrgð,  það er að segja á  hópi sjálfboðaliða sem skipuleggur samkomuna og heldur henni gangandi. Sú ábyrgð hefur aukist verulega á allra síðustu árum með tilheyrandi kröfum um aukna öryggis- og löggæslu. Öryggisgæsla var mun meiri í ár en sést hefur áður og þar með jókst líka kostnaður við að uppfylla margvíslegar en réttmætar kröfur um öryggismál af ýmsu tagi.

Ljóst er að á komandi árum myndi öryggis- og löggæslukostnaður verða áfram mikill og aukast frekar en hitt. Hið íslenska samfélag hefur breyst verulega á fáum árum og í harðnandi heimi felst mikil ábyrgð í því að efna til samkomu af því umfangi sem Fiskidagurinn mikli sannarlega er.

Þá ber að nefna að annar kostnaður, svo sem verð á aðföngum af flestu tagi, hefur rokið upp úr öllu valdi.

Verum minnug þess að Fiskidagurinn mikli aflar engra tekna með því að selja aðgang eða yfirleitt nokkurn skapaðan hlut. Drifkraftur samkomunnar er velvild og stuðningur samfélagsins í Dalvíkurbyggð og fyrirtækja þar og víðs vegar um landið, auk gríðarlega umfangsmikils sjálfboðaliðastarfs.

Fiskidagurinn mikli var hátíðlegur haldinn árlega frá 2001 til 2019. Þá kom þriggja ára COVID-hlé og töldu ýmsir að þar með væri samkoman lögst í eilífðardvala. Svo var aldeilis ekki því ákveðið var að blása á ný til Fiskidagsins mikla í ágúst 2023 og áhugi styrktaraðila, sjálfboðaliða, samstarfsfélaga og landsmanna reyndist síst minni en áður. Samkoman tókst afskaplega vel og greinilegur áhugi fyrir því að við skyldum halda ótrauð áfram sumarið 2024.

Gróflega má ætla að gestir Fiskidagsins mikla hafi frá upphafi verið um 600 þúsund og að um 6 þúsund sjálfboðaliðar hafi skilað að minnsta kosti sex tugum þúsunda vinnustunda til að gera samkomuna mögulega.

Stjórn Fiskidagsins mikla hefur að stórum hluta verið skipuð sama fólkinu allan tímann og með henni starfar fjöldi sjálfboðaliða sem öðlast hefur mikla reynslu og þekkingu á gangverki rekstrar og utanumhalds fjöldasamkomu af þessu tagi.

Um 130 fyrirtæki voru styrktaraðilar Fiskidagsins hverju sinni og sum hver á hverju einasta ári frá upphafi til enda.

Stjórn Fiskidagsins mikla þakkar frá innstu hjartarótum

  • þeim sem trúðu á þetta ótrúlega fjölskylduævintýri í upphafi.
  • öllum sem lögðu nótt við dag við undirbúning ár eftir ár.
  • fjölskyldum í byggðarlaginu sem opnuðu heimili sín og hjarta fyrir gestum á súpukvöldum.
  • gestum sem lögðu leið sína til Dalvíkurbyggðar til að þiggja og njóta.
  • traustum og öflugum fyrirtækjum/bakhjörlum, öllum styrktaraðilum yfirleitt og samstarfsaðilum.
  • sjálfboðaliðum heima og heiman og íbúum Dalvíkurbyggðar alveg sérstaklega.

Stjórn Fiskidagsins mikla 5. nóvember 2023

Júlíus Júlíusson framkvæmdastjóri
Þorsteinn Már Aðalsteinsson

Óskar Óskarsson, Guðmundur St. Jónsson
Sigurður Jörgen Óskarsson,Gunnar Aðalbjörnsson