Fréttir

Strandhreinsun

Strandhreinsum 8. ágúst - Tökum þátt

Strandhreinsun Fiskidagsins Mikla, Arctic Adventures og samstarfsaðila 8. ágúst. Við leitum eftir fleiri samstarfsaðilum og sjálfboðaliðum í verkefnið sem snýst um fjörur í Eyjafirði og nágrenni. Sumar fjörur eru auðhreinsaðar fótgangandi, aðrar fjörur krefjast báta og sérstaks búnaðar. Við hvetjum fólk til að taka þátt í þessu með okkur. Þú getur tekið þátt með skráningu í mismunandi ferðir. Áhugasamir þátttakendur skrái sig á facebooksíðunni „Strandhreinsun Fiskidagsins mikla, senda email á freyr.antonsson@adventures.is eða hringt í síma 8976076 Bátsferð þar sem fólk verður ferjað í land á minni bátum. Byrjað fótgangandi en sótt í fjöru við endastöð. Byrjað og endað fótgangandi. Skreppa í fjöruferð með fjölskylduna og týna rusl sem finnst. Tökum til í Eyjafirði. Skráir þig til leiks og ferð í fjöru við þína heimabyggð í Eyjafirði og týnir rusl sem þar er að finna. Skilar því til okkar eða lætur sækja til þín. Klukkan 10:00 fimmtudagsmorguninn 8. ágúst fer Draumur úr höfn á Dalvík áleiðis í hreinsun í Fjörður, áætlað að fara í Hvalvatnsfjörð og Þorgeirsfjörð. Þátttaka opin en gera skal ráð fyrir 8 tíma degi. Erfiðleikastuðull 3,5 af 5. Markmiðin eru að hreinsa eins mikið af strandsvæðum Eyjafjarðar og nágrennis og hægt er miðað við þátttöku og veður. Safna saman öllu ruslinu sem finnst í fjörunum og sýna 10. Ágúst á hátíðarsvæði Fiskidagsins Mikla. Vekja fólk til umhugsunar um umhverfið okkar og hvernig sumir hlutir enda í sjónum og síðar í fjörum landsins
Lesa meira
Regnbogagata Dalvík

Regnbogagata og heiðursgestir

Martröð verður regnbogagata Í dag þriðjudaginn 30. júlí var opnuð regnbogagata á Dalvík í tilefni af því að hinsegin dagar í Reykjavík verða heiðursgestir Fiskidagsins mikla í ár. Með regnbogagötunni sýnir Fiskidagurinn mikli og Dalvíkurbyggð stuðning við mannréttindi og margbreytileika. Regnbogagatan er staðsett í tveimur götum, Sunnutúni og Martröð sem er meðfram sjónum. Hinsegin dagar í Reykjavík verða heiðursgestir Fiskidagsins mikla 2019. Fulltrúi þeirra sér um Vináttukeðjuræðuna 2019 á setningu Fiskidagsins mikla föstudaginn 9. ágúst. Pottþétt hinsegin tónlistardagskrá verður á sviðinu yfir daginn, umsjón með þeirri dagskrá hefur Regína Ósk, fánar blakta við hún og fleira. Kveðja frá formanni Hinsegin daga í Reykjavík Á Hinsegin dögum 2019 minnumst við þess að 50 ár eru liðin frá Stonewall uppreisninni í Christoper-stræti í New York. Það var aðfaranótt 28. júní sem hinsegin fólk í New York fékk loks nóg af ofsóknum og áreiti lögreglu, snéri vörn í sókn og uppgötvaði samtakamáttinn. Réttindabarátta hinsegin fólks var hafin fyrir alvöru og grunnurinn lagður að pride-hátíðahöldum sem í dag þekkjast víða um heim. En ekki nóg með það. Í ár fögnum við einnig 20 ára óslitinni sögu hinsegin hátíðahalda í Reykjavík. Það var nefnilega árið 1999 sem Samtökin ʼ78 stóðu fyrir Hinsegin helgi í Reykjavík - einmitt til að minnast þess að þá voru 30 ár frá uppþotunum í Christopher-stræti. Um 1.500 gestir komu saman á Ingólfstorgi laugardaginn 26. júní og strax í kjölfarið var ákveðið að slík hátíðahöld þyrftu að verða að árlegum viðburði hér í borg. Ári síðar, þegar fyrsta gleðigangan var gengin, voru gestirnir tólf þúsund talsins. Undanfarna tvo áratugi hafa Hinsegin dagar vaxið og dafnað og eru í dag ekki einungis ein fjölsóttasta hátíð landsins heldur einnig líklega alfjölmennasta pride-hátíð í heimi sé miðað við höfðatölu. Af þessum árangri erum við að sjálfsögðu afar stolt en tökum um leið hlutverk okkar alvarlega og umgöngumst söguna af virðingu, því aðeins með því að vita hvaðan við komum finnum við leiðina þangað sem við ætlum, og við ætlum áfram. Áfram í átt að fullu jafnrétti, lagalegu og samfélagslegu. Við munum halda áfram að ræða, fræða og ögra en við ætlum líka að halda áfram að gleðjast. Á þessu sannkallaða afmælisári er því mikið fagnaðarefni að skipuleggjendur Fiskidagsins mikla hafi kosið að gera Hinsegin dögum og hinsegin málefnum hátt undir höfði og staðfesta þannig stuðning sinn við mannréttindi og margbreytileika mannlífsins. Við þökkum þann heiður sem okkur er sýndur og vonum að Dalvík, sem og landið allt, skarti sínum skærustu regnbogalitum í ágústmánuði. Gleðilega hátíð! Gunnlaugur Bragi Björnsson formaður Hinsegin daga í Reykjavík. Ljósmynd Haukur Snorrason
Lesa meira
Fiskaveröld

Fiskaveröld

Samherji og Fiskidagurinn bjóða börnum að skapa nýja fiskaveröld. Náttúran hefur skapað marga fiskana og í hafinu leynast þúsundir tegunda. Samherji veiðir t.d. um 50 þeirra. Á Fiskidaginn mikla milli kl 11.00 og 17.00 í salthúsinu verður börnum boðið að skapa og nota hugmyndaflugið til að búa til enn fleiri fiska. Börn á öllum aldri eru hvött til að teikna fisk, gefa honum nafn og hengja hann upp. Allir sem skila mynd fá glaðning. Þegar líður á daginn verður til mögnuð fiskasýning sem stækkar sífellt eftir því sem líður á daginn. Samherji, Fiskidagurinn mikli og börnin bjóða alla velkomna á sýninguna.
Lesa meira
Málvrkasýning Brimars

Málverkasýning Brimars

Lesa meira
Fiskasýningin 2018

Fiskasýning og fleira

Fiskasýning, Andlitsmálun, Disney kastali, þyrluflug og sýndarveruleikavideó. Skemmti og afþreyingar dagskráin á hátíðarsvæðinu milli 10.30 og 17.00 er fjölbreytt. Dagskráin hefst með látum þegar þyrla landhelgisgæslunnar sýnir listir sínar. Árni frá Skottafilm á Sauðárkróki verður með sýndarveruleikavideó frá vinnslu og veiðum. GG sjósport leyfir öllum að prófa Sit-On-Top kajakana. Fjöldi fallegra og fægðra fornbíla frá Bílaklúbbi Akureyrar verða til sýnis. Danshópurinn vefarinn sýnir þjóðdansa vítt og breytt um svæðið. Frá Reykjavík kemur hinn magnaði danshópur Superkidsclubjr. Teikniveröld fyrir börnin í salthúsinu og börnin fá glaðning þegar þau skila mynd. Fimleikafélag Akureyrar sér um andlitsmálun. Grímseyjarferjan verður við ferjubryggjuna. Myndasýning um starfsemi Samherja til sjós og lands. Vinir okkar úr Latabæ dreifa happadrættismiðum. Leikhópurinn Lotta verður með tvær sýningar yfir daginn á hátíðarsvæðinu þar sem að þau verða með söngva úr leikritunum sem að þau hafa sýnt s.l. 11 ár. Fiskasýningin magnaða var sett upp innandyra í fyrra og endurbætt og nú höldum við þeim endurbótum áfram með lýsingu, textum, myndböndum og fleiru. Um miðjan daginn verður sýndur hákarlaskurður. Listamenn dansa, syngja, spila, mála, teikna og sýna listir sínar víða um svæðið. Að venju er Björgunarsveitin á Dalvík með tjald á bryggjunni þar sem að hægt er að fá skyndihjálp og leita má til þeirra vegna týndra barna og fleira.
Lesa meira
Markaður

Markaður við Dalbæ

Markaður við Dalbæ. Miðvikudaginn 7. ágúst standa íbúar og starfsfólk Dalbæjar fyrir skemmtilegum fjölskylduprúttmarkaði við Dalbæ frá kl. 13.00 – 16.00. Um er að ræða einstakan fjáröflunarviðburð, öllum til gleði og ánægju. Þar má m.a. finna fatnað, skrautmuni, eldhúsáhöld, handverk, árstíðarvörur, bækur, sultur, bakkelsi og fl. Sala á vöfflukaffi, tónlist og fjör. Ath. það er ekki posi á staðnum. Allur ágóði rennur til endurbóta á aðstöðu fyrir íbúa Dalbæjar. Vinir og velunnarar heimilisins sem vilja gefa muni til þessa viðburðar vinsamlegast komið þeim á Dalbæ. Tekið er á móti brauði, bakkelsi og ferskum varningi á Dalbæ um hádegi, sama dag. Allir velkomnir, bestu kveðjur starfsfólk og íbúar Dalbæjar.
Lesa meira
Litla hafmeyjan

Litla hafmeyjan og gleðistund í kirkjunni

Litla hafmeyjan og gleðistund í kirkjunni. Föstudaginn 9. ágúst kl.16.00 sýnir leikhópurinn Lotta leikritið um litlu hafmeyjuna í kirkjubrekkunni, miðasala á staðnum. Klukkan 17.00 sama dag verður árleg gleði og Fiskidagsmessa í Dalvíkurkirkju. Séra Magnús G. Gunnarsson stýrir gleðinni, ræðumaður verður Kristján Þór Júlíusson úr Hólaveginum. Um tónlistina sjá Regína Ósk og Svenni Þór.
Lesa meira
Vináttukeðjan 2018

Setningin - Vináttukeðjan

Vinátta – Setning – Mamma hljómar Það má segja að setning Fiskidagsins mikla sé með Vináttukeðjunni kl. 18:00, föstudaginn 9. ágúst.Á Vináttukeðjunni koma fram: Ljótu hálfvitarnir, Hljómsveitin Angurværð, Friðrik Ómar Hjörleifsson, Gyða Jóhannesdóttir og karlaraddir úr Dalvíkurbyggð. Vinátturæðuna 2019 flytur fulltrúi Hinsegin daga í Reykjavík. Börnin fá fána og knúskortum og vináttuböndum verður dreift. Í lokin verður risaknús til þess að leggja vináttu og náungakærleikslínur fyrir helgina. Einnig verður flutt hið árlega lag “Mamma” sem endar í háum tónum og bombum. Lagið er eftir Friðrik Ómar Hjörleifsson og textinn eftir stjórnarformann Fiskidagsins Mikla Þorstein Má Aðalsteinsson
Lesa meira
Smábílasafn

Opnun - Smábílasafn

Gallerý nærendi - Smábílasafn og verkstæði Sigurvin Þórhallur Jónsson opnar smábílasafn og verkstæði í norðurenda afgreiðslu Samskipa á hafnarsvæðinu á Dalvík. Opnunin verður þriðjudaginn 6. ágúst frá kl 17.00 – 19.00. Sigurvin mun einnig vera með kærleikshjörtun sem hann framleiðir. Opnunartími í Fiskidagsviku, þriðjudagur til fimmtudags 17.00 – 19.00. Allir velkomnir.
Lesa meira
Fiskidagstónleikar 2019

Fiskidagstónleikarnir 2019 - Flytjendur

Samherji kynnir í samstarfi við Rigg viðburði, Fiskidaginn Mikla, Samskip, Exton og Björgunarsveit Dalvíkur: Fiskidagstónleikarnir 2019 verða haldnir sem fyrr við hafnarsvæðið á Dalvík 10. ágúst nk. Hljómsveit Rigg viðburða leikur undir hjá þjóðþekktum söngvurum sem flytja sín vinsælustu lög í útsetningum Ingvars Alfreðssonar. Gestgjafar eru heimamennirnir Friðrik Ómar, Eyþór Ingi og Matt Matt. Gestasöngvarar Fiskidagstónleikana 2019 eru: Svala, Valdimar, Auður, Páll Óskar, Sigga Beinteins, Grétar Örvarsson, Hr. Hnetusmjör, Þorgeir Ástvaldsson, Eyjólfur Kristjánsson og Bjartmar Guðlaugsson. Í kjölfar tónleikana verður glæsileg flugeldasýning. Allir hjartanlega velkomnir. Hljómsveitarstjórn: Ingvar Alfreðsson Dansar: Birna Björnsdóttir Hljóð: Haffi Tempó Lýsing: Helgi Steinar Grafík: Pálmi Jónsson Verkefnastjórn Exton: Steinar Snæbjörnsson Verkefnastjórn Rigg: Haukur Henriksen Sviðsetning og yfirumsjón: Friðrik Ómar
Lesa meira

Svæði

Fiskidagurinn Mikli

Hafnartorgi 620, Dalvík
Kt: 530605-1670 fiskidagurinn@julli.is - 8979748