Heimsfrumsýning

Erlendur kafari í ríki sjávarins

Erlendur Bogason, kafari á Akureyri, frumsýnir á Fiskideginum mikla 2014 tuttugu stuttmyndir með sögum og svipmyndum úr hafinu og af hafsbotni við Ísland. Þær eru talsettar á íslensku og hafa sömuleiðis verið framleiddar með ensku tali. Hver mynd er um þrjár mínútur að lengd. Erlendur naut stuðnings Rannsóknarsjóðs síldarútvegsins og Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum við að taka upp, vinna úr myndefninu og kynna það hér opinberlega í fyrsta sinn.

 Aðstandendur frumsýningarinnar ætla í framhaldinu að opna síðan í framhaldinu ókeypis aðgang að öllum myndunum á vefnum strytan.is eftir að dagskrá Fiskidagsins mikla lýkur.

 Tilgangurinn með þessari gjöf til þjóðarinnar er annars vegar að kynna nemendum í grunn- og framhaldsskólum lífríki og heillandi heim sjávarins í gegnum samskiptamiðla og hins vegar að greiða öllu áhugafólki hérlendis og erlendis leið að einstæðu fræðslu- og skemmtiefni úr íslenskri náttúru.

Erlendur Bogason er Vestmannaeyingur að uppruna. Hann býr á Akureyri og rekur köfunarþjónustuna Strýtuna í húsum gömlu síldarverksmiðjunnar á Hjalteyri við Eyjafjörð.Erlendur er með alþjóðleg PADI-réttindi til kennslu í köfun. Hann starfar sem köfunarkennari og skipuleggjandi ferða þar sem m.a. er kafað niður að hverastrýtunum í Eyjafirði og víðar við landið. 

Hverastrýturnar eru náttúrufyrirbæri á um 70 metra dýpi. Erlendur kafaði fyrstur manna niður að þeim árið 1997. Stærsta strýtan er 55 metra há og toppur hennar er 15 metrum undir sjávarborðinu. Áætlað er að um 100 sekúndulítrar af 75ºC heitu vatni renni stöðugt út úr strýtunni og á henni þrífst lífríki harðgerðra örvera. Strýturnar eru friðlýst náttúruvætti, enda einstæðar á heimsvísu.Haustið 2013 fól Umhverfisstofnun Erlendi Bogasyni umsjón með strýtusvæðinu. Kveðið er á um það í samningi þar að lútandi að reyndir kafarar eigi að láta Erlend vita ætli þeir að kafa niður að strýtunum. Óreyndir kafarar skulu byrja á því að fá fræðslu hjá Erlendi um strýtusvæðið áður en lengra er haldið.Rannsóknarsjóður síldarútvegsins veitti Erlendi Bogasyni fjárstyrk til þessa kvikmyndaverkefnis árið 2013 og hefur nú tilkynnt að Erlendur sé aftur meðal styrkþega 2014. Rannsóknarsjóðurinn er vistaður hjá Samtökum fiskvinnslustöðva. Markmið hans er meðal annars að efla nýsköpun, rannsóknir og fræðslu- og kynningarstarf í sjávarútvegi. Nánari upplýsingar um sjóðinn, tilgang hans, starfsemi og styrktarverkefni er að finna á vefnum sf.is.

Vinnslustöðin í Vestmannaeyjum (vsv.is) styrkti Erlend til kaupa á tækjum til að taka upp hágæðamyndir (HD) í sjónum í framhaldi af því að hann myndaði á vegum fyrirtækisins neðansjávar á humarslóð við Eyjar árið 2005. Það var upphafið að neðansjávarmyndatökum Erlendar. Í framhaldinu notaði hann nýja upptökutækni í tengslum við doktorsverkefni skoska líffræðingsins Heather Philp þegar Vinnslustöðin og Háskóli Íslands sameinuðust haustið 2006 um rannsóknir á atferli, veiðum og vinnslu humars.