Brotið frumsýnt

Brotið
Brotið

Brotið

Þremenningarnir María Jónsdóttir, Stefán Loftsson og Sveinn Haukur Sigvaldason hafa undanfarin fjögur ár unnið að gerð heimildarmyndar um sjóslysin er urðu á utanverðum Eyjafirði í aftakaveðrinu 9. apríl 1963.  Samfélagið á Dalvík varð þá fyrir miklu höggi er sjö sjómenn frá plássinu fórust.
 
Aðstandendur myndarinnar, sem holtið hefur nafnið BROTIÐ, hafa víða leitað fanga við heimildaöflun; tekið viðtöl við fólk og safnað myndefni. 
Ekki er laust við að verkefnið hafi á stundum tekið á sig mynd eins konar björgunarleiðangurs því margir viðmælenda voru komnir á efri ár þegar hafist var handa.  Sumir segja þar frá fyrir fram kvikmyndatökuvél í sitt fyrsta og síðasta sinn.  Sömuleiðis er ryk dustað af gömlu myndefni sem óvíst er að nokkru sinni hefði komið fyrir almenningssjónir ef ekki væri fyrir BROTIÐ.

Farið var í verkefnið mestmegnis með bjartsýni eina að vopni.  Fljótlega vatt það upp á sig og væri ekki komið á þennan stað ef ekki væri fyrir fjárstuðning einstaklinga, sjóða og fyrirtækja auk velvilja fólks við að leggja verkefninu lið á ýmsan annan hátt.  Kunna þremenningarnir þeim öllum bestu þakkir fyrir.

Höfundar BROTSINS eiga hvert og eitt rætur á Dalvík og er myndin afurð samvinnu þeirra.  Kvikmyndataka og klipping er í höndum Stefáns Loftssonar Sigvaldasonar, kvikmyndagerðamanns.  María Jónsdóttir, margmiðlunarhönnuður, heldur utan um rekstur og kemur að handriti og listrænum þáttum.  Framkvæmdastjóri og forsprakki heimildaöflunar er Haukur Sigvaldason, trésmiður, einnig mörgum að góðu kunnur fyrir ljósmyndir sínar.

BROTIÐ er nú fullklippt og komin í endanlegt form eftir því sem fjármagn leyfði.  Þó eftir sé að fínpússa viss tæknileg atriði hefur vinnuhópurinn engu að síður afráðið að sýna myndina gestum og gangandi kring um Fiskidaginn mikla sumarið 2016. 

Sýningar verða í Ungó: Frumsýning fimmtudag 4. ágúst kl 14,00 . Einnig kl 16,00 -18,00. Föstudaginn 5. ágúst kl 14,00 - 16,00. Sunnudaginn 7. ágúst kl 14,00.

Ekki verður um eiginlega miðasölu að ræða heldur geta gestir styrkt okkur með frjálsum framlögum til dæmis þúsund krónum 



Myndatexti:  Björgvin og Björgúlfur EA í Akureyrarhöfn 10. apríl 1963